Costa í fjögurra leikja bann

Douglas Costa í leiknum á móti Sassuolo.
Douglas Costa í leiknum á móti Sassuolo. AFP

Douglas Costa, leikmaður ítalska knattspyrnufélagsins Juventus, var í dag úrskurðaður í fjögurra leikja bann fyrir ljóta framkomu í leik Juventus og Sassuolo í efstu deild ítalska fótboltans um helgina. 

Costa missti stjórn á skapi sínu í rifrildi við Federico Di Francesco, leikmann Sassuolo. Fyrst reyndi hann að gefa honum olnbogaskot, síðan reyndi hann að skalla Di Francesco og að lokum hrækti hann upp í Ítalann. 

Brasilíumaðurinn baðst afsökunar á Instagram eftir atvikið. „Ég vil biðja alla stuðningsmenn Juventus afsökunar á hegðun minni. Ég vil einnig biðja liðsfélaga mína afsökunar. Þetta var ljótt, ég veit það og ég bið alla afsökunar,“ skrifaði hann á Instagram. 

Costa missir af leikjum við Frosinone, Bologna, Napoli og Udinese. Di Francesco þvertók fyrir að hann hafi verið með rasisma í garð Costa í pistli sem hann skrifaði á Twitter-síðu sinni í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert