Mourinho ósáttur með gervigrasið

José Mourinho var ánægður með útisigur sinna manna í Meistaradeildinni …
José Mourinho var ánægður með útisigur sinna manna í Meistaradeildinni í kvöld. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var ánægður með fyrsta sigur enska liðsins í Meistaradeild Evrópu í ár en United vann þægilegan 3:0-sigur á svissneska liðinu Young Boys í Sviss í kvöld. Paul Pogba skoraði tvívegis fyrir United í fyrri hálfleik og Anthony Martial bætti þriðja markinu við í síðari hálfleik eftir sendingu frá Pogba.

„Ætlunarverkið tókst. Þetta var ekki okkar besta frammistaða en við kláruðum verkefnið. Þeir byrjuðu af miklum krafti og voru fullir sjálfstrausts. Eftir að við skoruðum fyrsta markið var leikurinn í raun búinn. Það var mikilvægt fyrir okkur að vinna því hin liðin í riðlinum munu eflaust klára báða sína leiki gegn Young Boys.“

„Það verður erfitt að mæta Juventus og Valencia og það verða allt öðruvísi leikir. Sumir leikmenn mínir höfðu áhyggjur af vellinum og að meiðast. Margir voru aumir eftir æfingar á vellinum í gær. Við erum vanari að spila á frábærum grasvöllum á Englandi. Leikurinn er búinn núna og ég get í sannleika sagt að ég skil ekki hvernig hægt er að spila góðan fótbolta á gervigrasvelli,“ sagði Mourinho enn fremur í samtali við BT Sport. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert