Slær Arnór met Kolbeins í kvöld?

Arnór Sigurðsson í leik með U-21 árs liðinu.
Arnór Sigurðsson í leik með U-21 árs liðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Sigurðsson, knattspyrnumaðurinn efnilegi frá Akranesi, getur í kvöld orðið yngsti Íslendingurinn sem spilað hefur í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki.

Arnór er nýkominn til liðs við CSKA Moskva frá Rússlandi sem keypti hann af sænska félaginu Norrköping og verður að óbreyttu í leikmannahópnum í kvöld þegar CSKA sækir heim tékkneska liðið Viktoria Plzen í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðin eru í G-riðli keppninnar ásamt Evrópumeisturum Real Madrid og ítalska félaginu Roma, sem einnig eigast við í kvöld.

Arnór er 19 ára gamall og kom í fyrsta sinn inn í leikmannahóp CSKA um síðustu helgi þegar liðið vann Ufa 3:0 á útivelli en kom þó ekki við sögu í leiknum.

Kolbeinn Sigþórsson er til þessa yngstur Íslendinga til að spila í Meistaradeildinni en þar lék hann 21 árs gamall með Ajax haustið 2011 og spilaði þá gegn Lyon og Real Madrid. Kolbeinn er þriðji leikjahæstur Íslendinga í Meistaradeild Evrópu með 11 leiki, aðeins Eiður Smári Guðjohnsen (45) og Árni Gautur Arason (21) hafa spilað meira í þessari keppni. Alls hafa ellefu Íslendingar spilað í Meistaradeildinni og Arnór á því möguleika á að verða sá tólfti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert