Bætir við sig menntun

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuþjálfarinn, Óli Stefán Flóventsson, mun í vetur mennta sig frekar í þjálfarafræðunum. Hann hyggst taka UEFA Pro-gráðuna og gera það í samstarfi við norska knattspyrnusambandið.

Morgunblaðið ræddi við Óla í gær um hans stöðu en hann lætur af störfum hjá Grindavík þegar Pepsi-deildinni lýkur á næstunni.

„Ég mun taka gráðuna í Noregi og námið hefst í október. Ég reikna með því að halda áfram í þjálfun en spurningin er hvar og í hvaða gæðaflokki. Þjálfunin yrði sniðin með því námi meðan á því stendur en námið tekur eitt og hálft ár. Ég mun fara sjö sinnum til Noregs í lotuvinnu í nokkra daga í hvert skipti. Hluti af náminu er einnig að heimsækja stór félög og skila af sér verkefnum. Þetta er því heljarinnar dæmi,“ sagði Óli en bætti því við að mestmegnis færi námið fram yfir veturinn en væntanlega væri ein lota meðan á Íslandsmótinu stæði. Knattspyrnuáhugafólk kannast við sambærileg dæmi þegar þjálfarar hér heima hafa sótt sér sömu menntun.

Líkt sjómannslífinu

Óli er búsettur ásamt fjölskyldu sinni á Hornafirði og reiknar alveg eins með því að búa þar áfram. Hann hefur stýrt Grindavík síðustu þrjú tímabil og líkir því við sjómannslíf.

„Ég kalla þetta alltaf gamaldags sjómennsku. Maður er í útiveru og er að túra en kemur heim inni á milli. Við skoðum auðvitað alla möguleika í þessu. Okkur líður mjög vel á Hornafirði. Höfum komið okkur vel fyrir og börnunum líður vel. Það kemur því til greina að vera áfram á Hornafirði en er nokkuð sem þarf jafnframt að skoða þegar ný tækifæri bjóðast. Ef ég ætla mér stærri hluti í þjálfun þá þarf það að gerast annars staðar en á Hornafirði. Það liggur fyrir,“ sagði Óli og sagði viðskilnaðinn við Grindvíkinga hafa verið í bróðerni. Nú sé einfaldlega heppilegur tímapunktur fyrir sig og Grindavíkurliðið að breyta til.

Sjá allt viðtalið við Óla Stefán í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert