Ellefta rauða spjaldið hjá Ronaldo

Viðbrögð Ronaldos þegar rauða spjaldið fór á loft.
Viðbrögð Ronaldos þegar rauða spjaldið fór á loft. AFP

Portúgalinn Cristiano Ronaldo fékk að líta sitt 11. rauða spjald á ferlinum þegar hann var rekinn út af í sínum fyrsta leik með Ítalíumeisturum Juventus í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Ronaldo, sem var niðurbrotinn þegar hann gekk út af á Mestalla-leikvanginum í Valencia og brast í grát, var fjórum sinnum rekinn af velli þegar hann lék með Manchester United og í tvígang í leik gegn grönnunum í Manchester City.

Portúgalinn var sex sinnum sendur af velli þegar hann lék með Real Madrid og ellefta rauða spjaldið fékk hann svo að líta eftir 29. mínútna leik með Juventus í gær.

Ronaldo verður í banni þegar Juventus mætir Valencia á heimavelli í næstu umferð og mögulega verður hann úrskurðaður í tveggja leikja bann sem myndi þýða að hann missir af leik sinna manna gegn gömlu félögunum í Manchester United á Old Trafford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert