Reyndu að nálgast dómarann í hálfleik

Niðurbrotinn Cristiano Ronaldo gengur af leikvelli í gær.
Niðurbrotinn Cristiano Ronaldo gengur af leikvelli í gær. AFP

Það gekk mikið á í leikhléi í viðureign Valencia og Juventus í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Mikil reiði var í herbúðum Juventus vegna rauða spjaldsins sem Cristiano Ronaldo fékk á 29. mínútu.

„Ég hef ekki gert neitt,“ öskraði Ronaldo á dómarann Felix Brych eftir að hann reif upp rauða spjaldið og í leikhléi biðu Pavel Nedved, varaforseti Juventus, og tveir úr starfsliði félagsins fyrir utan búningsklefa dómaranna.

Spænska blaðið Marca greinir frá því að Nedved og félagar hans hafi reynt að komast að Brych. Vitni segja að þeir hafi hækkað málróminn og óskað eftir því að fá að vita ástæðu fyrir því að Ronaldo fékk rauða spjaldið. Sá eini sem hélt ró sinni var Brych.

Nú er þess beðið hvað Brych hafi skrifað á skýrslu sína. Ljóst er að Ronaldo verður í banni í næsta leik Juventus í Meistaradeildinni sem er heimaleikur á móti Young Boys en sá möguleiki er fyrir hendi að Ronaldo verði úrskurðaður í tveggja leikja bann sem myndi þýða að hann yrði ekki með í leiknum á móti sínum gömlu félögum í Manchester United á Old Trafford.

mbl.is