Zürich byrjar Evrópudeildina á sigri

Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum í kvöld. AFP

Guðlaugur Victor Pálsson fór fyrir sínum mönnum í Zürich þegar liðið vann 1:0-sigur gegn kýpverska liðinu AEK Laranca á Kýpur í kvöld í A-riðli Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu. Benjamin Kololli skoraði sigurmark leiksins á 61. mínútu úr vítaspyrnu. Pa Modou Jagne fékk að líta sitt annað gula spjald á 84. mínútu í liði Zürich og þar með rautt en það kom ekki að sök og gestirnir frá Zürich unnu því dýrmætan sigur. 

Í hinum leik A-riðils kom Bayer Leverkusen til baka gegn Ludogorets Razgrad í Búlgaríu eftir að hafa lent 2:0 undir í leiknum. Claudiu Keseru og Marcelinho komu Ludogorets í 2:0 en Kai Havertz og Isaac Kiese Thelin jöfnuðu metin fyrir þýska liðið. Það var svo Kai Havertz sem skoraði sigurmark leiksins á 69. mínútu og lokatölur því 3:2 í Búlgaríu í kvöld.

Matthías Vilhjálmsson sat allan tímann á varamannabekk norska liðsins Rosenborg sem tapaði á dramatískan hátt fyrir fyrir Celtic í Skotlandi í B-riðlinum, 1:0. Það var Leigh Griffits sem skoraði sigurmark leiksins á 87. mínútu. Í hinum leik B-riðils tryggði Fredrik Gulbrandsen Salzburg 3:2-sigur gegn RB Leipzig í Þýskalandi en mark Gulbrandsen kom á 89. mínútu.  

Austurríska liðið komst í 2:0 í leiknum með mörkum frá þeim Munas Dabbur og Amadou Haidara en Konrad Laimer minnkaði muninn fyrir RB Leipzig á 71. mínútu. Youssuf Pulsen jafnaði svo metin fyrir Leipzig á 82. mínútu og virtist allt stefna í að liðin myndu skipta með sér stigunum þegar Gulbrandsen skoraði sigurmarkið undir leikslok.

Í C-riðlinum skiptu FCK og Zenit frá Pétursborg með sér stigunum í Danmörku. Robert Mak kom Rússunum yfir á 44. mínútu en Pieros Sotiriou jafnaði metin fyrir FCK á 63. mínútu og lokatölur því 1:1 á Parken. Í hinum leik C-riðilsins vann Slavia Prague 1:0-sigur gegn Bordeaux í Tékklandi, 1:0, þar sem Jaromir Zmarhal skoraði eina mark leiksins á 35. mínútu.

Dinamo Zagreb fór svo illa með tyrkneska stórliðið Fenerbahce í Króatíu í D-riðlinum, 4:1, þar sem Ivan Hajrovic skoraði tvívegis fyrir Dinamo Zagreb. Ivan Sunjic og Daniel Olmo komust einnig á blað hjá króatíska liðinu en það var Roman Neustaedter sem skoraði eina mark Tyrkjanna í leiknum. Matej Oravec reyndist hetja Spartak Trnava í hinum leik D-riðils þar sem Spartak hafði betur gegn Anderlecht í Serbíu, 1:0. Oravec skoraði sigurmark leiksins á 79. mínútu. 

Gonzalo Higuain reyndist hetja Milan í Lúxemborg en hann skoraði sigurmark Milan gegn F91 Dudelange í F-riðlinum. Markið kom á 59. mínútu. Þá gerðu Plympiakos og Real Betis markalaust jafntefli á Spáni í hinum leik F-riðils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert