„Hann var í uppnámi“

Emil Hallfreðsson og félagar hans mæta Ronaldo á sunnudaginn.
Emil Hallfreðsson og félagar hans mæta Ronaldo á sunnudaginn. mbl.is/Eggert

Emil Hallfreðsson og samherjar hans í ítalska liðinu Frosinone eiga erfitt verkefni í vændum á sunnudaginn en þá fá nýliðarnir meistarana í Juventus í heimsókn í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu.

Juventus, meistarar síðustu sjö ára, hefur byrjað tímabilið með fullkomnum hætti en liðið er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir en Frosinone er í næstneðsta sætinu með eitt stig en liðið steinlá fyrir Fiorentina á heimavelli um síðustu helgi.

Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, er sannfærður um að Cristiano Ronaldo mæti vel einbeittur til leiks eftir viðburði vikunnar en Portúgalinn var rekinn út af í sínum fyrsta leik með Juventus í Meistaradeildinni.

„Hann var í uppnámi og þurfti tíma til að róa sig niður. Hann þarf að jafna sig á þessu og mæta einbeittur til leiks á sunnudaginn, jafnvel þótt þessir hlutir skilji eftir sig óbragð í munni,“ sagði Allegri við fréttamenn í gær.

mbl.is