Emil gat ekki stöðvað Ronaldo

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu. AFP

Emil Hallfreðsson og félagar hans í Frosinone stóðu svo sannarlega í meisturum Juventus þegar liðin áttust við í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Juventus hafði betur í leiknum 2:0 en bæði mörkin voru skoruð á síðustu tíu mínútum leiksins.

Cristiano Ronaldo gat tekið gleði sína á ný en eftir að hafa fengið rauða spjaldið í sínum fyrsta leik með Juventus í Meistaradeildinni í síðustu viku. Hann skoraði fyrra mark sinna manna og lagði það síðara upp og Juventus hefur unnið alla fimm leiki sína.

Ronaldo tókst ekki að skora í fyrstu þremur deildarleikjunum með Juventus en hefur skorað í síðustu tveimur og er greinilega að ná áttum í ítölsku A-deildinni.

Emil fór af velli á 85. mínútu en nýliðar Frosinone eru með 1 stig eftir fimm leiki og hefur liðinu ekki tekist að skora mark en hefur fengið á sig 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert