Konur fá Gullboltann 62 árum á eftir körlum

Gullboltinn er eftirsóttur.
Gullboltinn er eftirsóttur. Ljósmynd/FIFA

Franska knattspyrnutímaritið France Football hefur tilkynnt að það muni í fyrsta sinn í ár veita hin eftirsóttu verðlaun Ballon d‘Or, eða Gullboltann, í kvennaflokki. Markar það söguleg tímamót.

Viðurkenningin hefur verið veitt í karlaflokki nánast sleitulaust frá árinu 1956 eða í 62 ár. Viðurkenninguna fær sá knattspyrnumaður sem hefur þótt skara fram úr ár hvert og sigrar í kosningu íþróttafréttamanna frá öllum löndum Evrópu.

„Kvennaknattspyrna er í mikilli sókn og á skilið sömu virðingu og karlaknattspyrna. Kvennaboltinn er alltaf að stækka og meira en 760 milljónir manns horfðu á leiki frá heimsmeistaramóti kvenna árið 2015,“ er haft eftir Pascal Ferre, yfirritstjóra France Football.

Viðurkenningin verður veitt 3. desember í París. Í október verður opinberaður listi yfir 30 knattspyrnumenn, og nú 15 konur, sem efst eru í kjörinu.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa ein­okað kjörið síðastliðinn ára­tug. Síðast árið 2007 vann ein­hver ann­ar en þeir, en þá var það hinn bras­il­íski Kaká.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert