Fékk ekki atkvæði landsliðsþjálfarans

Ada Hegerberg.
Ada Hegerberg. AFP

Martin Sjögren, þjálfari norska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, valdi ekki löndu sína, Ada Hederberg, sem eina af þremur bestu knattspyrnukonum heims en valið var kunngert á verðlaunahátíð FIFA í Lundúnum í gær.

Val landsliðsþjálfarans hefur vakið mikla athygli í Noregi og margir eru ósáttir við að hann skyldi ekki setja Hegerberg á atkvæðaseðil sinn en auk hennar voru þær Marta frá Brasilíu og hin þýska Dz­seni­fer Mar­ozs­an tilnefndar. Marta hreppti hnossið og það í sjötta sinn. Sjögren ákvað að velja Pernille Harder, Dzsenifer Maroszan og Sam Kerr á lista sinn.

„Við vorum beðin um að velja þá þrjá leikmenn sem okkur þóttu vera þeir bestu í heimi og mér fannst þessir bestir, betri en Ada,“ sagði Sjögren við norsku sjónvarpsstöðina TV2.

41 landsliðsþjálfari var með Hederberg sem eina af þremur bestu leikmönnum í heiminum en af tíu bestu þjóðunum var það bara þjálfari brasilíska landsliðsins sem var með Hegerberg á atkvæðaseðli sínum.

Hegerberg sagði skilið við norska landsliðið eftir Evrópumótið í fyrra og margir vilja meina að þess vegna hafi Sjögren ekki valið Hegerberg.

„Það er engin íþróttaleg ástæða að kjósa ekki Hegerberg. Hún skoraði 30 mörk í frönsku deildinni og setti nýtt markamet og var markahæst í Meistaradeildinni. Þegar landsliðsþjálfari velur ekki landa sinn sem eina af þremur bestu leikmönnum heims sem hann hefur tækifæri á að gera er það barnalegt,“ segir Kasper Wikestad íþróttafréttamaður TV2.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert