Gunnhildur og Fanndís á leið til Ástralíu

Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val.
Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir, landsliðskonur í knattspyrnu, hafa samið við ástralska úrvalsdeildarliðið Adelaide United.

Fanndís staðfesti þetta í samtali við vefmiðilinn fótbolti.net. Fanndís gekk í raðir Vals fyrir í sumar frá franska liðinu Marseille og lék með Hliðarendaliðinu síðari hluta tímabilsins. Gunnhildur Yrsa hefur spilað með Utah Royals í Bandaríkjunum en hún fór til liðsins síðastliðinn vetur frá norska úrvalsdeildarliðinu Vålerenga.

„Þetta er mjög spennandi og tækifæri sem býðst ekki alltaf,“ segir Fanndís í viðtali við fótbolti.net en keppnistímabilið í Ástralíu hefst í lok október og lýkur í febrúar. Níu lið spila í áströlsku úrvalsdeildinni en á síðustu leiktíð hafnaði Adelaide United í neðsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert