„Spennandi ævintýri“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Þjóðverjum.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Þjóðverjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Deildin mín í Bandaríkjunum er búin og ég á ekki að vera mætt aftur út fyrr en í mars svo þegar þetta kom upp þá ákvað ég að stökkva til,“ sagði landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í samtali við mbl.is en hún og Fanndís Friðriksdóttir, samherji hennar í íslenska landsliðinu, hafa samið við ástralska knattspyrnufélagið Adelai­de United.

„Það eru margir leikmenn í bandarísku deildinni sem fara til Ástralíu að spila. Ég var í sambandi við nokkur félög og mér leist best Adelai­de United. Það er um að gera að prófa eitthvað nýtt og það verður fínt að fá góða leiki í sterkri deild og spila við góðar aðstæður. Þetta verður vonandi mikið ævintýri og er spennandi. Það eru nokkrir leikmenn í mínu liði sem hafa farið til Ástralíu að spila og ég hef fengið góð meðmæli frá þeim. Mér finnst sjálfsagt að prófa þetta enda hentar þetta mér mjög vel þar sem ég hefði annars verið í fríi,“ sagði Gunnhildur Yrsa í samtali við mbl.is.

Gunnhildur Yrsa er samningsbundin bandaríska atvinnumannaliðinu Utah Royals sem hún gekk til liðs við í byrjun janúar en hún fer á láni til Adelai­de United. Gunnhildur átti góðu gengi að fagna með liði Utah Royals þar sem hún lék hverja einustu mínútu en liðið, sem var nýliði í deildinni, endaði í 5. sæti.

Fanndís Friðriksdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verða samherjar hjá Adelai­de …
Fanndís Friðriksdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verða samherjar hjá Adelai­de United. mbl.is/Golli

Eins og áður segir mun Fanndís Friðriksdóttir spila með Gunnhildi hjá Adelai­de United en Fanndís lék með Val síðari hluta tímabilsins eftir að hafa yfirgefið franska liðið Marseille.

„Það verður fínt að fá Fanndísi með mér. Liðið vantaði framherja og ég hugsaði strax til Fanndísar þegar forráðamenn liðsins spurðu mig að því hvort ég vissi um einhvern framherja sem væri á lausu,“ sagði Gunnhildur en hún og Fanndís halda utan til Ástralíu í næstu viku.

Gunnhildur Yrsa er 30 ára gömul og hefur spilað 59 A-landsleiki og skorað í þeim 9 mörk. Hún er uppalin í Stjörnunni en hefur frá árinu 2013 spilað erlendis. Fyrst með norsku liðunum Arna-Bjørnar, Grand Bodø, Stabæk og Vålerenga og síðan Utah Royal í Bandaríkjunum.

Fanndís er 28 ára gömul og hefur spilað 97 A-landsleiki og skorað í þeim 15 mörk. Hún er uppalin hjá Breiðabliki en hefur spilað með Kolbotn og Arna-Bjørnar í Noregi og franska liðinu Marseille.

Þóra Björg Helgadóttir fyrrverandi landsliðsmarkvörður er eina íslenska knattspyrnukonan sem spilað hefur í Ástralíu en hún lék með liði Western Sydney Wanderers veturinn 2012-13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert