Þrjár þrennur í 21 leik

Alfreð Finnbogason - 25 mörk í 50 leikjum í 1. …
Alfreð Finnbogason - 25 mörk í 50 leikjum í 1. deild í Þýskalandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfreð Finnbogason minnti heldur betur á sig í fyrsta leik sínum á tímabilinu í þýsku knattspyrnunni í dag, eins og áður hefur komið fram, þegar hann skoraði þrennu í 4:1 sigri Augsburg á Freiburg.

Alfreð er þar með fyrsti Íslendingurinn sem skorar þrjár þrennur í einni af fimm sterkustu deildum Evrópu en þar er um að ræða deildirnar í Þýskalandi, Englandi, á Spáni, Ítalíu og í Frakklandi.

Það sem meira er, Alfreð hefur skorað sínar þrjár þrennur á aðeins 12 mánuðum. Hann gerði tvær þrennur í september 2017, í 3:0 sigri gegn Köln og 3:3 jafntefli gegn Freiburg, og lék nú sama leik gegn Freiburg.

Og enn merkilegra er að frá því í september 2017 og þar til í september 2018 hefur Alfreð verið mikið frá keppni vegna meiðsla. Hann hefur á þessum tíma misst af 17 leikjum liðsins í deildinni og þrennurnar þrjár hefur hann náð að skora í aðeins 21 leik.

Tveir aðrir Íslendingar hafa gert þrennur í þýsku 1. deildinni. Atli Eðvaldsson gerði reyndar gott betur þegar hann skoraði öll fimm mörk Düsseldorf í 5:1 sigri á Eintracht Frankfurt árið 1983 og síðan skoraði Eyjólfur Sverrisson þrennu fyrir Stuttgart í 7:0 sigri á Dortmund árið 1991.

Þá hafa aðeins sex leikmenn í sögu þýsku 1. deildarinnar skorað fleiri þrennur en Alfreð. Hann kom sér enn fremur í metabækur Augsburg í dag með því að vera orðinn markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins í 1. deild með 25 mörk. Mörkin hefur hann gert í 50 leikjum og er því með mark í öðrum hverjum leik að meðaltali í þessari sterku deild.

Eiður Smári Guðjohnsen er eini Íslendingurinn sem hefur skorað þrennu í ensku úrvalsdeildinni en í frönsku 1. deildinni skoraði Albert Guðmundsson tvær þrennur fyrir Racing Club frá París árin 1950 og 1952. Engin íslensk þrenna hefur verið skoruð í efstu deild á Spáni eða á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert