Rannsaka nauðgunarmál gegn Ronaldo

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Lögreglan í Las Vegas hefur tekið upp að nýju rannsókn á kynferðislegu ofbeldi sem átti sér stað í borginni árið 2009 að beiðni konu sem sakar knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo um að hafa nauðgað henni.

Kathryn Mayorga segir að Ronaldo hafi ráðist á hana og nauðað henni í hótelbergi í borginni það ár. Ronaldo segir ekkert hæft í ásökunum og segir þetta lygi. Hann og umboðsmaður hans ætla að höfða mál gegn þýska tímaritinu Der Spiegel sem fyrst birti fréttina.

Der Spiegel segir að Mayorga hafi kært árásina til lögreglu í Las Vegas skömmu eftir að hún átti sér stað. Árið 2010 hafi hún komist að samkomulagi við Ronaldo um að fá greidda 375 þúsund Bandaríkjadali fyrir að koma ekki fram með ásakanir á hendur Ronaldo opinberlega. 

BBC segir að lögmenn hennar séu nú að reyna að fá samkomulagið ógilt. Lögreglan í Las Vegas staðfestir að hafa rannsakað málið í júní 2009 en ekki hafi verið neinar upplýsingar að fá um ofbeldismanninn. Mayorga hafi hvorki upplýst um hvar nauðgunin átti sér stað né heldur hver var að verki. Rannsókn þess geti nú hafist að nýju þar sem upplýst hafi verið um hver gerandinn var og hvar hann nauðgaði henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert