Glódís Perla samdi við Rosengård

Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir hefur framlengt samning sinn við sænska úrvalsdeildarliðið Rosengård til tveggja ára.

Glódís Perla kom til Rosengård frá sænska liðinu Eskilstuna í fyrra og hefur verið í lykilhlutverki með liðinu, sem er í öðru sæti deildarinnar þegar þremur umferðum er ólokið. Glódís hefur í tvígang hampað bikarmeistaratitlinum með liðinu.

„Ég er mjög ánægð með að hafa gert nýjan samning við Rosengård. Ég hlakka til tveggja næstu ára og að halda áfram að bæta mig sem leikmaður í félagi sem hefur mikil gæði og metnað til að verða betra,“ segir Glódís á vef Rosengård.

Glódís hefur spilað alla 19 leiki Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og hefur í þeim skorað 4 mörk.

 

mbl.is