Ísland gefst aldrei upp

Hugo Lloris markvörður og fyrirliði Frakka heldur á HM-styttunni sem ...
Hugo Lloris markvörður og fyrirliði Frakka heldur á HM-styttunni sem Frakkar mættu með á æfingu í Guingamp í gær. AFP

Hugo Lloris og Didier Deschamps ræddu af virðingu um íslenska landsliðið á blaðamannafundi í gær fyrir vináttulandsleik Frakka við Íslendinga í Guingamp í kvöld.

Ekki var stjörnustælunum fyrir að fara hjá heimsmeisturunum, hvorki Lloris fyrirliða né Deschamps þjálfara, þrátt fyrir alla velgengnina síðustu ár; silfur á EM og gull á HM, og 13 leiki í röð án taps. Eftir fund héldu þeir á æfingu fyrir framan fullan leikvang áhorfenda.

„Við þekkjum Ísland vel eftir að hafa mætt því í erfiðum leik á EM 2016. Jafnvel þó að við höfum unnið 5:2 var sá leikur erfiður. Ég man sérstaklega eftir seinni hálfleik, þegar úrslitin áttu að vera ráðin, því þeir börðust allt til enda. Andinn í þessu liði er stórkostlegur,“ sagði Lloris þegar Morgunblaðið spurði hann um íslenska liðið.

Franskir fjölmiðlamenn, sem fjölmenntu á fundinn, höfðu lítinn áhuga á að spyrja út í íslenska liðið en mikinn áhuga á að vita hvað Deschamps þætti um ákveðna leikmenn í eða utan franska hópsins, og hver þeim Lloris og Deschamps fyndist eiga að vinna Gullboltann. Báðir voru hins vegar fúsir til að tala um íslenska liðið:

„Íslendingar stóðu sig nokkuð vel á HM en voru óheppnir. Þeir hefðu alveg getað náð upp úr sínum riðli,“ sagði Lloris. Deschamps tók í sama streng: „Það er erfitt að mæta Íslendingum og ég er viss um að þeir munu aldrei gefast upp í þessum leik. Það er hluti af þeirra DNA. Það er gott fyrir okkur að mæta svona andstæðingi.

Þó að úrslitin á HM hafi ekki verið þau sömu og á EM hef ég horft á leiki Íslands á mótinu og veit að liðið stóð sig vel,“ sagði Deschamps.

Leikurinn við Ísland er liður í undirbúningi Frakka fyrir leik við Þýskaland í Þjóðadeildinni á þriðjudag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »