Vildum gera allt fyrir fólkið

Kylian Mbappé á móti Hannesi Þór Halldórssyni í kvöld.
Kylian Mbappé á móti Hannesi Þór Halldórssyni í kvöld. AFP

Ungstirnið Kylian Mbappé sá til þess að Frakkar töpuðu ekki í fyrsta sinn gegn Íslendingum þegar þjóðirnar áttust við í vináttuleik í Guingamp í Frakklandi í kvöld.

Mbappé, sem skoraði fernu á 13 mínútum í leik með Paris SG um síðustu helgi og er talinn vera mesta efni í heimsfótboltanum í dag, kom inn á eftir klukkutíma leik í kvöld. Frakkar voru þá 2:0 undir á móti öflugu liði Íslands en Mbappé sá til þess að Frökkum tókst að jafna metin. Hann átti stóran þátt í sjálfsmarki Hólmars Arnar Eyjólfssonar á 86. mínútu og jafnaði svo metin með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu.

„Liðið sá að við þurftum að gera eitthvað annað og ég kom með það sem ég gat gert,“ sagði Mbappé við frönsku sjónvarpsstöðina TF1 eftir leikinn

„Við sáum að stuðningsmennirnir stóðu við bakið á okkur þótt þetta hafi ekki verið stór leikvangur. Við vildum gera allt fyrir fólkið sem var á vellinum. Við náðum jafntefli við töpuðum ekki en við er samt svolítið pirraðir,“ sagði Mbappé.

mbl.is