Íslenska liðið skipulagt og lék vel

Kári Árnason besti maður Íslands hefur betur gegn Olivier Giroud.
Kári Árnason besti maður Íslands hefur betur gegn Olivier Giroud. AFP

Didier Dechamps, landsliðsþjálfari heimsmeistara Frakka í knattspyrnu, segist ekki hafa áhyggjur af liði sínu þrátt fyrir að það náði á ögurstundu að tryggja sér jafntefli gegn Íslendingum í vináttuleik í Guingamp í Frakklandi í gærkvöld.

Frakkar lentu 2:0 undir gegn frábæru liði Íslands en tókst að skora tvö mörk á fjórum síðustu mínútum leiksins þar sem ungstirnið Kylian Mbappé reyndist bjargvætturinn.

„Við byrjuðum illa í leiknum og það voru vandamál með hugarfarið okkar,“ sagði Deschamps en Frakkar sækja Þjóðverja heim í Þjóðadeildinni á mánudaginn.

„Við vorum aðeins of rólegir fyrir framan vel skipulagt lið sem lék vel á móti okkar. En um leið og við fundum meiri takt, vorum þéttari og keyrðum fram á við þá vorum hættulegri en þetta er ekkert til að hafa áhyggur af,“ sagði landsliðsþjálfarinn eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert