Furðuleg ummæli Maradona um Messi

Maradona finnst Messi fara of oft á klósettið.
Maradona finnst Messi fara of oft á klósettið. AFP

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona lét heldur furðuleg ummæli um Lionel Messi falla í í sjónvarpsviðtali í heimalandinu í dag. Maradona segir Messi fara of oft á klósettið fyrir leiki til að vera góður leiðtogi. 

Maradona viðurkennir að Messi sé besti leikmaður Argentínu, en 20 klósettferðir fyrir hvern leik sé ekki leiðtoga sæmandi. „Messi er magnaður leikmaður en hann er ekki leiðtogi," byrjaði Maradona, sem hélt svo áfram. 

„Hann er mikið í PlayStation áður en hann talar við þjálfara og leikmenn, en það er erfitt að segja hvort hann eigi að vera fyrirliði. Það er ekki hægt að vera leiðtogi ef þú ferð á klósettið 20 sinnum fyrir leik. Við eigum að hætta að horfa á Messi sem guð, hann er eins og hver annar leikmaður argentínska landsliðsins," sagði hinn skrautlegi Maradona enn fremur. 

mbl.is