Svava skoraði en klikkaði á punktinum

Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði en brenndi af í vítakeppninni.
Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði en brenndi af í vítakeppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lillestrøm er komið í bikarúrslit í norska kvennafótboltanum eftir sigur á Røa á útivelli í undanúrslitum í dag. Svava Rós Guðmundsdóttir var áberandi hjá Røa og kom liðinu í 2:0 á 23. mínútu með góðri afgreiðslu eftir að hún lék á varnarmann. 

Røa komst í 3:0 á 46. mínútu, en Lillestrøm skoraði þrjú mörk fyrir leikslok og tryggði sér framlengingu. Í framlengingunni var ekkert skorað og réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Í stöðunni 3:1 fyrir Lillestrøm í vítakeppninni þurfti Svava að skora til að halda Røa í leiknum. Hún þrumaði hins vegar í slánna og er Lillestrøm því komið í úrslit. Sigríður Lára Garðarsdóttir var allan tímann á varamannabekk Lillestrøm. 

mbl.is