Hvetur leikmenn til að mennta sig

Giorgio Chiellini er með meistaragráðu í fyrirtækjastjórnun.
Giorgio Chiellini er með meistaragráðu í fyrirtækjastjórnun. AFP

Giorgio Chiellini, fyrirliði ítalska knattspyrnufélagsins Juventus, hvetur aðra knattspyrnumenn til þess að ganga menntaveginn en Ítalinn er með gráðu í hagfræði og þá tók hann meistaragráðu í fyrirtækjastjórnun á síðasta ári.

„Ég missti aldrei af æfingu til þess að mæta í skólann. Þegar að þú ert atvinnumaður í fótbolta er nægur frítími og það ættu allir leikmenn í heiminum að geta fundið tíma til þess að læra. Þú þarft ekki að setja fótboltann til hliðar eða færa neinar knattspyrnufórnir fyrir námið og það ættu allir að geta tileinkað sér það að sinna náminu.“

„Lífið er langt og knattspyrnuferlinum lýkur oft í kringum 35 ára aldurinn. Þá á maður nóg eftir og við eigum að hvetja fleiri knattspyrnumenn til þess að ná sér í háskólagráður. Það eru of margir leikmenn sem hafa nánast ekkert að gera í lífinu þegar ferlinum lýkur,“ sagði varnarmaðurinn öflugi í samtali við FIFPro á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert