Engin þjálfaraskipti hjá Bayern

Niko Kovac, þjálfari Bayern München, er ekkert á förum.
Niko Kovac, þjálfari Bayern München, er ekkert á förum. AFP

Þær sögusagnir sem fóru á flug í gærkvöld að Arsene Wenger yrði kynntur til leiks sem nýr þjálfari þýska stórliðsins Bayern München í dag reyndust innistæðulausar.

Forráðamenn Bayern München boðuðu í gær óvæntan fréttamannafund fyrir hádegi í dag og þegar í stað fóru sögur af stað að þar yrði Wenger kynntur til leiks sem nýr þjálfari í stað Niko Kovac.

Hæstráðendur hjá Bæjurum, forsetinn Uli Hö­ness, stjórn­ar­formaður­inn Karl-Heinz Rum­menig­ge og íþrótta­stjór­inn Has­an Sali­hamidzic, boðuðu til fréttamannafundarins og á honum nýttu þeir tækifærið til að verja sína leikmenn og þjálfara og vísuðu óréttmætri gagnrýni fjölmiðla á þá á bug.

Kovac, sem tók við liði Bayern München í sumar, verður áfram við stjórnvölinn og hafa forráðamenn þýska stórliðsins fulla trú á að honum takist að rétta gengi liðsins við en Bayern, sem hefur ekki tekist að vinna í síðustu fjórum leikjum sínum, er í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Dortmund. Bayern München sækir Wolfsburg heim á morgun.

mbl.is