Skoraði fimm og jafnaði Atla Eðvaldsson

Luka Jovic fagnar marki fyrir Eintracht Frankfurt.
Luka Jovic fagnar marki fyrir Eintracht Frankfurt. AFP

Serbneski knattspyrnumaðurinn Luka Jovic jafnaði afrek Atla Eðvaldssonar frá árinu 1983 þegar hann skoraði fimm mörk fyrir Eintracht Frankfurt í 7:1 sigri á Fortuna Düsseldorf í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Jovic, sem er aðeins tvítugur, komst þar með í fámennan hóp leikmanna sem hafa skorað fimm mörk í leik í efstu deild Þýskalands en aðeins einu sinni hefur verið gert betur. Það var árið 1977 þegar Dieter Müller skoraði fimm mörk fyrir Köln í 7:2 sigri á Werder Bremen.

Atli Eðvaldsson fagnar einu markanna fimm í leiknum við Frankfurt ...
Atli Eðvaldsson fagnar einu markanna fimm í leiknum við Frankfurt árið 1983. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson


Þetta er í sautjánda skipti í sögu deildarinnar sem leikmaður skorar fimm mörk. Atli var fyrsti erlendi leikmaðurinn til að vinna það afrek á sínum tíma og svo skemmtilega vill til að þá áttu í hlut sömu lið og í kvöld. Atli skoraði nefnilega öll fimm mörk Fortuna Düsseldorf í 5:1 sigri á Eintracht Frankfurt 4. júní árið 1983.

Meðal þeirra sem eru jafnir Atla og Jovic með fimm mörk í leik í deildinni eru kappar á borð við Gerd Müller, sem lék þennan leik oftast allra, eða fimm sinnum, Jürgen Klinsmann, Dieter Höness, Jupp Heynckes og Robert Lewandowski.

mbl.is