Conte tilbúinn að taka við Real Madrid

Antonio Conte er sterklega orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Real Madrid.
Antonio Conte er sterklega orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Real Madrid. AFP

Julen Lopetegui, knattspyrnustjóri Real Madrid, þykir afar valtur í sessi þessa dagana. Real Madrid er án sigurs í síðustu fimm leikjum sínum en liðið tapaði sínum öðrum deildarleik í röð í gær fyrir Levante á heimavelli, 2:1.

Real er í fimmta sæti spænsku 1. deildarinnar með 14 stig eftir fyrstu níu umferðirnar, fjórum stigum á eftir toppliði Barcelona. Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að forráðamenn Real Madrid íhugi nú alvarlega að láta Lopetegui fara en hann tók við liðinu í sumar af Zinedine Zidane.

Antonio Conte, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea, er sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Real Madrid þessa dagana. Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni setti Real Madrid sig í samband við Ítalann eftir tap liðsins gegn CSKA Moskvu í Meistaradeildinni í lok september. 

Conte var rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea í sumar en hann gerði liðið að Englandsmeisturum á sínu fyrsta tímabili með liðið árið 2017. Þá gerði hann Juventus þrívegis að Ítalíumeisturum en Conte vill snúa aftur í þjálfun sem fyrst og er Real Madrid líklegur áfangastaður hjá knattspyrnustjóranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert