Lærisveinar Heimis settu stigamet

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lærisveinar Heimis Guðjónssonar í liði HB slógu stigametið í færeysku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

HB sótti B36 heim í deildinni í dag og vann 3:1 sigur og er komið með 70 stig eftir 26 leiki. Ein umferð er eftir og tekur HB þá á móti Víkingi um næstu helgi.

HB er fyrir löngu búið að tryggja sér færeyska meistaratitilinn en liðið er með 18 stiga forskot á lið NSÍ sem er í öðru sæti deildarinnar. HB er búið að vinna 23 leiki, tapa 2 og gera eitt jafntefli.

Grétar Snær Gunnarsson lék allan tímann fyrir HB en Brynjar Hlöðversson fór meiddur af velli eftir aðeins þriggja mínútna leik.

Þá skoraði Pape Mamadou Faye mark Suðureyjarliðsins TB/FCS/Royn sem tapaði 3:1 fyrir KÍ í Klaksvík. Þetta var hans fimmta mark í 11 leikjum í deildinni en Pape kom til liðsins frá Víkingi í Ólafsvík á miðju tímabilinu. Suðureyingar sigla lygnan sjó í sjöunda sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert