Ronaldo með sitt 400. deildarmark

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Cristiano Ronaldo skoraði í gær sitt 400. deildarmark þegar Juventus tapaði sínum fyrstu stigum í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu á tímabilinu með því að gera 1:1 jafntefli á heimavelli gegn Genoa.

Ronaldo er fyrsti leikmaðurinn sem nær að skora 400 mörk í fimm stærstu deildunum í Evrópu en næstur á eftir honum kemur Lionel Messi sem skoraði sitt 389. deildarmark fyrir Barcelona í sigri gegn Sevilla.

Ronaldo hefur skorað 5 mörk fyrir Juventus í deildinni, hann skoraði 84 mörk með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og 311 fyrir Real Madrid í spænsku 1. deildinni.

Ronaldo verður næst í eldlínunni gegn sínu gamla liði Manchester United á Old Trafford á þriðjudagskvöldið þegar United tekur á móti Juventus í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert