Rooney skaut DC í úrslitin

Wayne Rooney fagnar með DC United.
Wayne Rooney fagnar með DC United. AFP

Wayne Rooney var enn á skotskónum með DC United í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í kvöld og mörk hans gulltryggðu liðinu sæti í úrslitakeppninni um bandaríska meistaratitilinn.

Rooney skoraði tvö fyrri mörk liðsins í 3:1 heimasigri gegn New York City og hefur nú skorað 12 mörk í deildinni á tímabilinu en hann kom til liðsins frá Everton á miðju sumri. Liðið var þá á botni Austurdeildarinnar en hefur heldur betur komist á skrið, hefur unnið fimm síðustu leikina og er ósigrað í síðustu níu.

DC United er nú í fimmta sæti af ellefu liðum í Austurdeildinni þegar ein umferð er eftir en sex efstu liðin fara áfram í hvorri deild.

mbl.is