Komum hingað til að fá þrjú stig

Arnór gengur af velli eftir tapið gegn Roma í kvöld.
Arnór gengur af velli eftir tapið gegn Roma í kvöld. Ljósmynd/uefa.com

Skagamaðurinn ungi Arnór Sigurðsson lék sinn þriðja leik í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld og þann fyrsta í byrjunarliðinu þegar CSKA Moskva tapaði fyrir Roma 3:0 á útivelli.

Arnór, sem kom inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum CSKA Moskva í Meistaradeildinni, lék allan tímann sem og Hörður Björgvin Magnússon sem í kvöld þreytti frumraun sína í Meistaradeildinni.

„Við komum hingað til að fá þrjú stig. Við byrjuðum vel og áttum nokkur færi til að byrja með. En þegar Roma skoraði sitt fyrsta mark á breyttist leikurinn. Við sýndum það á móti Real Madrid að við getum unnið hvaða lið sem er og það eru mikil gæði í okkar liði og því ekki að koma hingað og reyna að ná í þrjú stig þótt það hafi ekki tekist. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að næsta leik og sjá hvað gerist í honum,“ sagði Arnór í viðtali á uefa.com eftir leikinn en hann er aðeins 19 ára gamall.

CSKA Moskva var í toppsæti riðilsins fyrir leikinn í kvöld eftir magnaðan sigur á Evrópumeisturum Real Madrid í síðustu umferð en eftir leiki kvöldsins er rússneska liðið í þriðja sæti með 4 stig en Roma og Real Madrid eru með 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert