Evrópuævintýrið skilaði tæpum milljarði

Östersund fór alla leið í 32ja liða úrslit Evrópudeildar UEFA …
Östersund fór alla leið í 32ja liða úrslit Evrópudeildar UEFA á síðustu leiktíð. AFP

Sænska knattspyrnuliðið Östersund fékk tæplega einn milljarð íslenskra króna í sinn hlut fyrir óvænta framgöngu sína í Evrópudeild UEFA síðasta vetur. Endanlegt uppgjör fyrir Evrópudeildina og Meistaradeildina var birt í gær.

Östersund sló í gegn í keppninni en þetta lítt þekkta félag úr norðurhluta Svíþjóðar lék í fyrsta skipti í úrvalsdeildinni 2016, vann sænska bikarinn vorið 2017 og komst þannig inn í undankeppni Evrópudeildarinnar 2017-18.

Úr því varð eitt allsherjar ævintýri. Östersund sló út Galatasaray frá Tyrklandi, Fola Esch frá Lúxemborg og PAOK Saloniki frá Grikklandi, og var þá komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Í riðlakeppninni voru mótherjarnir Athletic Bilbao frá Spáni, Hertha Berlín frá Þýskalandi og Zorya Luhansk frá Úkraínu. Fæstir reiknuðu með því að Östersund ynni leik í riðlinum.

En Östersund vann báða leikina við Zorya, heimaleikinn við Herthu Berlín, gerði jafntefli við Bilbao heima og við Herthu á útivelli. Þar með sigldu Bilbao og Östersund örugglega áfram með 11 stig hvort og voru komin í 32ja liða úrslit.

Mótherjinn þar var Arsenal, sem gerði út um einvígið með 3:0 sigri á gervigrasinu í Östersund í febrúar 2018. En Svíarnir luku keppni með glæsibrag, sigruðu Arsenal 2:1 í London og stigu stoltir af stóra sviðinu.

Östersund hefur komið sér vel fyrir í hópi betri liða Svíþjóðar. Liðið endaði í 8. sæti á fyrsta tímabilinu 2016, endaði í 5. sæti 2017 og er núna í 6. sæti þegar fjórum umferðum er ólokið. Viðbúið er að félagið geti notað Evrópupeningana til að halda sér á þessum slóðum.

Félögin 56 sem komust í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og lengra fengu samtals 428 milljón evrur, 58,8 milljarða íslenskra króna, í sinn hlut. Arsenal fékk mest, um 5,2 milljarða íslenskra króna, enda þótt enska liðið hafi fallið út í undanúrslitum gegn Atlético Madrid. Spánverjarnir fengu „aðeins“ 2,2 milljarða en þeir komu úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar og fengu 4,4 milljarða þaðan. Marseille, sem tapaði fyrir Atlético í úrslitaleiknum, fékk um 3,2 milljarða.

FC Köbenhavn frá Danmörku fékk rúman milljarð, auk 400 milljóna í „sárabætur“ fyrir að falla út í umspili fyrir Meistaradeildina, og Rosenborg frá Noregi fékk rúmar 800 milljónir íslenskra króna. Hvorugt þeirra komst áfram úr riðlakeppninni en þetta eru félög sem hafa margfalt meira umleikis í rekstri og umgjörð en Östersund, sem frekar má líkja við stærstu íslensku félögin en stóru klúbbana á Norðurlöndum.

Greinina má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert