Alfreð lagði upp sigurmark í framlengingu

Alfreð Finnbogason kom inn af varamannabekknum og lagði upp sigurmarkið.
Alfreð Finnbogason kom inn af varamannabekknum og lagði upp sigurmarkið. AFP

Alfreð Finnbogason reyndist hetja Augsburg í þýsku bikarkeppninni í knattspyrnu er hann lagði upp sigurmark liðsins í 3:2-sigri í framlengdum leik gegn Mainz í 32-liða úrslitunum í kvöld. Bæði lið leika í efstu deild.

Alfreð, sem hefur skorað fimm mörk í fjórum deildarleikjum fyrir Augsburg á tímabilinu, byrjaði á varamannabekknum í kvöld og það voru gestirnir frá Mainz sem skoruðu fyrsta markið, Phillipp Mwene gerði það eftir 19 mínútna leik.

Leikmaður Mainz varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark skömmu fyrir hálfleik til að jafna metin en Robin Quaison kom gestunum þá aftur yfir rétt fyrir hlé. Alfreð kom inn á völlinn á 74. mínútu og rúmum tíu mínútum síðar var staðan orðin jöfn þökk sé marki Michael Gregoritsch.

Meira var þó ekki skorað í venjulegum leiktíma og varð því að grípa til framlengingar. Þar skoraði brasilíski sóknarmaðurinn Caiuby sigurmark leiksins þökk sé stoðsendingu Alfreðs á 105. mínútu, lokatölur 3:2.

Dregið verður í 16-liða úrslitin 4. nóvember næstkomandi en leikirnir fara þó ekki fram fyrr en í febrúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert