Tími kominn á breytingar

Haukur Heiðar Hauksson.
Haukur Heiðar Hauksson. Ljósmynd/Twitter-síða AIK

Sumarið 2016 lék fótboltalífið við Hauk Heiðar Hauksson. Þessi eyfirski hægri bakvörður fór með íslenska landsliðinu á fyrsta stórmót þess, EM í Frakklandi, og virtist hinn augljósi næsti kostur á eftir Birki Má Sævarssyni í sinni stöðu. Þá lék hann líka alla leiki með einu besta og sögufrægasta liði Norðurlanda, AIK í Svíþjóð.

Þó að hljóðið sé gott í Hauki þegar ég heyri í honum er víst óhætt að segja að hallað hafi undan fæti hjá honum síðustu tvö ár. Eftir fjögur ár hjá AIK gæti vel farið svo að þessi fyrrverandi leikmaður KA og KR (hvar hann varð Íslandsmeistari 2013 og bikarmeistari 2012 og 2014) snúi aftur til Íslands og spili í Pepsi-deildinni næsta sumar.

Haukur, sem er 27 ára gamall, hefur gengist undir tvær hnéaðgerðir; haustið 2016 og svo aftur þegar tímabilið 2017 var að hefjast. Hann hefur ekki verið í landsliðshópnum í mótsleik síðan Ísland vann Tyrkland og Finnland í undankeppni HM haustið 2016, og aðeins komið við sögu í fjórum deildarleikjum með AIK á þessari leiktíð. Síðustu ellefu leiki í röð hefur hann þurft að sitja á varamannabekknum og horfa upp á liðsfélaga sína færast nær sænska meistaratitlinum.

Síðustu tvö ár erfið

„Síðustu tvö ár eru búin að vera svolítið erfið,“ segir Haukur. „Það tekur mann sinn tíma að komast af stað eftir aðgerðir og þetta hefur gengið upp og niður. Það er þannig með svona hnéaðgerðir að maður finnur alltaf fyrir einhverju, en að mínu mati hef ég náð að aðlagast vel og ég hef æft í langan tíma núna nánast án þess að missa af æfingu. Við þetta bætist hins vegar auðvitað að við erum með frábært lið hérna, frábæra leikmenn í öllum stöðum og menn sem hafa verið að koma inn úr stærri deildum,“ segir Haukur.

Hann segir það aftur á móti ekki verra fyrir sig að AIK noti 3-5-2 leikkerfi, og hafi gert það síðustu tvö ár undir stjórn Rikard Norling, þó að Íslendingar þekki Hauk sem hægri bakvörð.

„Ég hef alltaf verið hægri bakvörður en fyrst eftir að Norling tók við spilaði ég alla leiki, hægra megin í þriggja miðvarða línu. Það hentar mér mjög vel og ég myndi segja að það væri mín staða í dag að vera þar sem miðvörður,“ segir Haukur.

Sjá allt viðtalið við Hauk Heiðar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert