Evrópsk risadeild kynnt í nóvember?

Yfirgefa Liverpool og Manchester City ensku úrvalsdeildina eftir þrjú ár?
Yfirgefa Liverpool og Manchester City ensku úrvalsdeildina eftir þrjú ár? AFP

Þýska blaðið Der Spiegel kveðst hafa heimildir fyrir því að sextán af stærstu knattspyrnufélögum Evrópu muni síðar í þessum mánuði boða stofnun nýrrar „risadeildar" í evrópskri knattspyrnu frá og með árinu 2021.

Þarna eiga í hlut félög frá fimm þjóðum, Englandi, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu og Frakklandi, og þau munu þá um leið hætta keppni í sínum heimadeildum, sem og í Meistaradeild Evrópu.

Der Spiegel segir að félögin séu eftirtalin:

England: Manchester United, Manchester City, Liverpool, Arsenal og Chelsea.
Ítalía: Juventus, AC Milan, Inter Mílanó og Roma.
Spánn: Real Madrid, Barcelona og Atlético Madrid.
Þýskaland: Bayern München og Dortmund.
Frakkland: París SG og Marseille.

Ellefu þessara félaga teljast vera stofnfélög en fimm öðrum boðin þátttaka, sem eru Atlético Madrid, Dortmund, Marseille, Inter og Roma.

Upplýsingarnar segir Der Spiegel koma úr leyniskjölum sem lekið hafi út og blaðið muni í framhaldi af því, í samvinnu við fjórtán aðra fjölmiðla í Evrópu, hefja birtingu á „óhreinu mjöli í pokahorni“ stóru knattspyrnufélaganna.

Þar muni m.a. koma fram að Bayern München hafi að undanförnu kannað lögfræðilegu hliðina á því að draga sig úr keppni í Bundesligunni þýsku til að komast í evrópsku risadeildina, sem og því að koma í veg fyrir að leikmenn félagsins spili með landsliði Þýskalands.

mbl.is