Hjálpaði Man.City og PSG að brjóta reglur

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Þýska blaðið Der Spiegel heldur áfram uppljóstrunum sínum úr knattspyrnuheiminum og segir í dag að Manchester City og París SG hafi fengið góða hjálp frá Gianni Infantino, núverandi forseta FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, við að sleppa við refsingar fyrir brot á reglum um fjárhagslega háttvísi.

Der Spiegel segir að gögn sem blaðið hafi undir höndum sanni að Manchester City og París SG hafi kerfisbundið brotið reglur FIFA um fjárhagslega háttvísi um árabil, en bæði félög eru í eigu auðkýfinga við Persaflóann, í Abu Dhabi og Katar.

Blaðið segir að Infantino hafi, sem þáverandi framkvæmdastjóri UEFA, verið beittur miklum þrýstingi frá eigendunum og eftirgjöf hans hafi leitt til þess að félögin hafi getað komið sínu fram, á svig við lög og reglur.

Blaðið segir að UEFA hafi beitt félögin tvö vægum refsingum og ekki rekið þau úr Meistaradeild Evrópu eins og raunin hafi verið með minni félög fyrir sömu brot.

Blaðið segir enn fremur að Infantino hafi þrátt fyrir yfirlýst hlutleysi hitt eigendur félaganna tveggja á leynilegum fundum. Hann hafi jafnframt veitt þeim innanhússupplýsingar frá UEFA og greitt götu þess að „samkomulag“ yrði gert um refsingar félaganna, án þess að hafa leyfi til þess. Þannig hafi hann á skipulagðan hátt komið í veg fyrir að UEFA hefði nægilega yfirsýn yfir málefni félaganna.

Upplýsingarnar segir Der Spiegel koma úr leyniskjölum sem lekið hafi út og blaðið muni í framhaldi af því, í samvinnu við fjórtán aðra fjölmiðla í Evrópu, hefja birtingu á „óhreinu mjöli í pokahorni" stóru knattspyrnufélaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert