Stundum hellirignir

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson.
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Belgíu á útivelli í lokaleik sínum í 2. riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar þann 15. nóvember, eða eftir tíu daga.

Hólmar Örn Eyjólfsson og Rúnar Már Sigurjónsson, sem báðir voru í byrjunarliðinu gegn Sviss í síðasta landsleik, verða ekki með vegna meiðsla og svo er óvíst með þátttöku Birkis Bjarnasonar, sem er meiddur í nára. Íslenska liðið gæti því verið án þriggja byrjunarliðsmanna frá síðasta landsleik er það mætir til Belgíu. Morgunblaðið heyrði í Frey Alexanderssyni aðstoðarlandsliðsþjálfara og spurði hann út í stöðu manna fyrir næsta landsliðsverkefni. „Þetta eru þrír leikmenn sem byrjuðu og spiluðu vel á móti Sviss sem eru meiddir. Hólmar og Rúnar nýttu tækifærin sín gríðarlega vel eftir langa fjarveru frá landsliðinu,“ sagði Freyr. Hólmar sleit krossband í hné og verður frá í langan tíma. Freyr finnur til með varnarmanninum.

Skelfileg tíðindi

„Meiðslin hjá Hólmari eru skelfileg tíðindi. Maður finnur til með honum og við veitum honum þann stuðning sem við getum. Það tekur langan tíma að koma til baka eftir þetta.“ Rúnar Már hefur ekkert spilað síðan gegn Sviss í síðasta mánuði og þurfti hann að fara í aðgerð. „Rúnar er búinn að vera með eymsli og eftir síðustu landsleiki sagði líkaminn stopp. Hann þurfti að fara strax í aðgerð. Rúnar verður kominn aftur í desember, sennilega,“ sagði Freyr, sem er þokkalega bjartsýnn á að Birkir Bjarnason verði búinn að ná sér fyrir leikina. „Við tökum stöðuna á honum í næstu viku. Nárameiðsli eru vandmeðfarin, en hann er í góðum höndum hjá Aston Villa og hann hugsar vel um sig, svo við erum bjartsýnir.“

Jón Daði Böðvarsson var ekki með í síðasta landsliðshóp vegna kálfameiðsla. Jón jafnaði sig á þeim en meiddist svo í baki og skiljanlega er Freyr svekktur. „Það er synd og skömm fyrir hann aðallega en svo okkur líka. Við vorum spenntir að fá Jón aftur til liðs við okkur. Hann var búinn að jafna sig á kálfameiðslunum, en stundum þegar það rignir, þá hellirignir.“

Emil Hallfreðsson er enn að glíma við hnémeiðsli og verður ekki klár í slaginn. Áföllin eru því ansi mörg á skömmum tíma fyrir Frey og Erik Hamrén, landsliðsþjálfara.

Sjá allt viðtalið við Frey í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert