Æsispennandi hjá Arnóri - Chelsea vann

Olivier Giroud fagnar sigurmarki sínu.
Olivier Giroud fagnar sigurmarki sínu. AFP

Arnór Ingvi Traustason og liðsfélagar hans í sænska fótboltaliðinu Malmö gerðu í dag 1:1-jafntefli við frændur sína í Sarpsborg frá Noregi. Arnór lék allan leikinn á vinstri kantinum. 

Liðin eru í æsispennandi I-riðli þar sem staðan er afar jöfn. Belgíska liðið Genk er á toppnum með sjö stig eftir jafntefli við Besiktas á heimavelli. Sarpsborg og Malmö koma þar á eftir með fimm stig og Besiktas rekur lestina með fjögur stig. Þegar tvær umferðir eru eftir geta öll lið því enn komist áfram. 

Chelsea gerði góða ferð til Hvíta-Rússlands og vann 1:0-sigur á Bate Borisov. Olivier Giroud skoraði sigurmarkið á 52. mínútu og var það fyrsta mark Frakkans á leiktíðinni. Chelsea er öruggt áfram í 32-liða úrslit eftir sigurinn. 

Jón Guðni Fjóluson var allan tímann á varamannabekk Krasnodar er liðið vann 2:1-sigur á Standard Liége á heimavelli. Krasnodar er í öðru sæti riðilsins með níu stig, eins og topplið Sevilla. Standard Liége er í þriðja sæti með sex stig. 

Úrslit leikjanna sem hófust kl. 17:55: 

Akhisarspor - Sevilla 2:3
Apollon Limassol - Frankfurt 2:3
Bate Borisov - Chelsea 0:1
Dynamo Kíev - Rennes 3:1
Krasnodar - Standard Liége 2:1
Genk - Besiktas 1:1 
Lazio - Marseille 2:1
Vidi - PAOK 1:0
Malmö - Sarpsborg 1:1
Rapid Vín - Villarreal 0:0
Spartak Moskva - Rangers 4:3

mbl.is