Einbeitt á næsta ár

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, þarf að taka því rólega næsta mánuðinn eða svo vegna meiðsla.

Sara meiddist á æfingu í Madrid í lok síðasta mánaðar, fyrir seinni leik Wolfsburg og Atlético Madrid þar sem Wolfsburg tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með afgerandi hætti.

„Þetta er tognun á sin utan á leggnum. Þeir segja að þetta taki 4-6 vikur. Maður þarf að fara varlega svo að það rifni ekki neitt. Ég hef ekkert brjálæðislegar áhyggjur af þessu en þarf að taka því rólega og vonast eftir því að vera góð eftir fjórar vikur,“ segir Sara við Morgunblaðið.

Líkt og síðustu tvö ár hefur Sara átt fast sæti í byrjunarliði Þýskalandsmeistaranna í öllum keppnum í haust. Eftir að verið studd af velli vegna hásinarmeiðsla í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Kiev í maí hafði hún náð góðum bata. „Ég er mjög góð í hásinunum og hef ekki fundið neitt fyrir þeim. Þetta er því bara eitthvað annað sem kom upp,“ segir Sara.

Allt í blóma hjá Wolfsburg

Hún lék sína fyrstu leiki eftir hásinarmeiðslin með íslenska landsliðinu í byrjun september, og lék alls tólf leiki í september og október. Wolfsburg hefur gengið allt í haginn og unnið fyrstu átta leiki sína í þýsku 1. deildinni og er þegar komið með sjö stiga forskot á næsta lið, Bayern München. Þá hefur liðið slegið út tvo andstæðinga í Meistaradeildinni, Þór/KA samtals 3:0 og Atlético samtals 10:0. Á morgun ræðst hvaða liði Wolfsburg mætir í 8-liða úrslitum en þau verða ekki leikin fyrr en í seinni hluta mars. Tveggja mánaða vetrarhlé er í þýsku deildinni frá 15. desember, og þá spilar íslenska landsliðið ekki fleiri leiki á þessu ári, svo þessi tímapunktur er ef til vill skárri en margir aðrir til að meiðast.

Sjá allt viðtalið við Söru í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert