Wenger ekki búinn að heyra í Real

Arsene Wenger ásamt Unai Emery, eftirmanni hans hjá Arsenal.
Arsene Wenger ásamt Unai Emery, eftirmanni hans hjá Arsenal. AFP

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, er ekki búinn að heyra í forráðamönnum Real Madrid, en Frakkinn hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá spænska risanum að undanförnu eftir brottrekstur Julien Lopetegui í síðasta mánuði. 

Santiago Solari stýrir Real til bráðabirgða á meðan leit að eftirmanni Lopetegui stendur yfir. Wenger sagði á dögunum að hann ætlaði að snúa aftur í fótbolta eftir áramót. „Ég er ekki búinn að taka ákvörðun um framtíð mína,“ sagði Wenger við beIN Sport. 

„Ég er ekki viss hvort ég fari beint í knattspyrnustjórn á ný. Real Madrid er ekki búið að hafa samband við mig. Ég ákveð hvað ég geri í janúar,“ bætti Wenger við. Wenger er orðinn 69 ára og var hann orðaður við stjórastöðuna hjá AC Milan á dögunum. 

mbl.is