Endurkoman að breytast í martröð

Thierry Henry var ráðinn knattspyrnustjóri Monaco í október.
Thierry Henry var ráðinn knattspyrnustjóri Monaco í október. AFP

Thierry Henry, fyrrverandi framherji enska knattspyrnufélagsins Arsenal, var ráðinn knattspyrnustjóri Monaco í frönsku 1. deildinni 11. október síðastliðinn. Henry er uppalinn hjá Monaco og voru miklar vonir bundnar við ráðningu hans en gengi franska félagsins á þessari leiktíð hefur verið afleitt.

Franski blaðamaðurinn Julien Laurens og Guillem Balague, sérfræðingur hjá BBC, ræddu málin um stöðu franska liðsins í útvarpsþætti BBC á dögunum og fóru ekki fögrum orðum um endurkomu Henry. „Það er allt í rugli þarna og maður vorkennir Henry því ég tel að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því, hversu slæmt ástandið var hjá félaginu,“ sagði Laurens.

Balague tók í sama streng. „Henry hefur allt til brunns að bera til þess að vera góður knattspyrnustjóri en í svona stöðu er erfitt að sjá hann breyta einhverju. Þetta er lið sem er í molum. Í fyrstu leit þetta út eins og eitthvert ævintýri um fallega endurkomu en þetta er að breytast í martröð.“

Árangur Henry hefur ekki verið upp á marga fiska en liðið er án sigurs undir stjórn Frakkans. Monaco hefur tapað tveimur leikjum og gert þrjú jafntefli og situr í næst neðsta sæti frönsku 1. deildarinnar með 7 stig eftir fyrstu tólf leiki tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert