Alfreð skorað sjö mörk í sex leikjum

Alfreð Finnbogason fagnar marki með Augsburg fyrr á leiktíðinni.
Alfreð Finnbogason fagnar marki með Augsburg fyrr á leiktíðinni. AFP

Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, er heldur betur óstöðvandi með Augsburg í þýsku 1. deildinni en hann skoraði sjöunda mark sitt á tímabilinu í dag.

Alfreð lék þá allan leikinn þegar Augsburg heimsótti Hoffenheim og jafnaði hann metin á 70. mínútu, aðeins fimm mínútum eftir að liðið lenti undir. Markið dugði þó ekki til því Hoffenheim tryggði sér að lokum 2:1 sigur.

Þetta var sjöunda markið sem Alfreð skorar í þýsku deildinni á tímabilinu í aðeins sjötta leik hans, en hann var meiddur í byrjun tímabils. Augsburg er í 10. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 11 leiki.

mbl.is