Andri Rúnar markakóngur og deildarmeistari

Andri Rúnar Bjarnason varð markakóngur sænsku B-deildarinnar og Helsingborg stóð ...
Andri Rúnar Bjarnason varð markakóngur sænsku B-deildarinnar og Helsingborg stóð þar jafnframt uppi sem sigurvegari. Ljósmynd/@HelsingborgsIF

Andri Rúnar Bjarnason endaði sem markakóngur sænsku B-deildarinnar í knattspyrnu, en lokaumferðin fór fram í dag. Lið hans Helsingborg varð deildarmeistari og er á leið í efstu deild á ný eftir tveggja ára fjarveru.

Andri Rúnar spilaði allan leikinn og skoraði tvö mörk í lokaumferðinni þegar Helsingborg vann Varberg 3:1. Hann skoraði alls 16 mörk í 27 leikjum í deildinni á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku, en næstu menn skoruðu 14 mörk. Andri Rúnar stendur því uppi sem markakóngur annað árið í röð, eftir að hafa afrekað það með Grindavík í Pepsi-deildinni 2017 með 19 mörkum.

Helsingborg vann 18 af 30 leikjum sínum í B-deildinni og hlaut alls 63 stig. Falkenberg hafnaði í öðru sæti og fer einnig beint upp en Eskilstuna fer í umspil við liðið í þriðja neðsta sæti efstu deildar um sæti á meðal þeirra bestu.

Andri Rúnar var fyrr í dag útnefndur leikmaður ársins hjá Helsingborg eins og mbl.is hafði áður greint frá.

Höskuldur Gunnlaugsson skoraði svo eitt mark fyrir Halmstad sem vann 4:1 sigur á Kampreferat. Höskuldur spilaði allan leikinn fyrir Halmstad en Tryggvi Hrafn Haraldsson sat á bekknum hjá liðinu sem hafnaði í 5. sæti deildarinnar.

Alfons Sampsted spilaði allan leikinn fyrir Landskrona sem tapaði 4:0 fyrir Örgryte. Landskrona hafnaði í neðsta sæti deildarinnar. Þá var Viktor Karl Einarsson ekki í hóp hjá Värnamo sem tapaði fyrir Frej, 1:0, og þarf að fara í umspil um áframhaldandi veru í deildinni.

mbl.is