Knattspyrnudómari varð fyrir árás

Ekki virðist vera hættulaust að taka að sér dómgæslu í knattspyrnu miðað við örlög Daniels Sweeney sem liggur nú brotinn á sjúkrahúsi. 

Sweeney dæmdi leik í knattspyrnudeild á Írlandi á laugardaginn á milli Mullingar Town og Horseleap. Að leiknum loknum mun Sweeney hafa orðið fyrir líkamsárás á bílastæðinu fyrir utan knattspyrnuvöllinn. 

Mullingar hafði betur í leiknum 3:1. Í ljósi þeirrar staðreyndar þykir athyglisvert að einstaklingarnir fjórir sem grunaðir eru um árásina eru leikmenn Mullingar og einn stuðningsmaður liðsins. 

Lögreglan rannsakar málið enda er Sweeney kjálkabrotinn auk annarra áverka, til dæmis fleiri beinbrota í andliti. Sean Montgomery, formaður deildarinnar, segist ætla að krefjast lífstíðarbanns yfir hinum grunuðu. 

„Ég hef aldrei vitað annað eins og deildin tekur málið mjög alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert