Óttar yfirgefur Trelleborg

Óttar Magnús Karlsson í leik með 21-árs landsliðinu í haust.
Óttar Magnús Karlsson í leik með 21-árs landsliðinu í haust. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson er á förum frá sænska félaginu Trelleborg en hann lék með því í úrvalsdeildinni þar í landi á nýloknu tímabili.

Óttar kom fyrir tímabilið sem lánsmaður frá Molde í Noregi og kom við sögu í 14 af 30 leikjum liðsins í deildinni þar sem hann skoraði eitt mark. Trelleborg varð neðst í deildinni og féll.

Félagið staðfesti á vef sínum í dag að Óttar væri á förum nú þegar þótt skrifað hefði verið undir eins árs lánssamning í febrúar. Hann er 21 árs sóknarmaður og er markahæsti leikmaður 21-árs landsliðsins á þessu ári með 3 mörk í 5 leikjum, og þá skoraði hann eitt mark í tveimur leikjum með A-landsliði Íslands gegn Indónesíu í janúar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert