Enn reynir á þolrifin hjá Aroni

Aron Jóhannsson í leik með Bremen gegn Schalke.
Aron Jóhannsson í leik með Bremen gegn Schalke. AFP

Það á ekki af knattspyrnumanninum Aroni Jóhannssyni að ganga en þessi 28 ára gamli framherji neyðist nú til að gangast undir aðgerð á vinstri ökkla og verður frá keppni næstu þrjá mánuðina af þeim sökum.

Frá þessu var greint á heimasíðu Werder Bremen þar sem íþróttastjóri félagsins fullyrti að Aron ætti að ná fullum bata með því að fara í aðgerðina, en meiðsli hafa plagað hann síðustu vikur.

Aron hefur glímt við meiðsli drjúgan hluta þess tíma sem hann hefur verið hjá Werder Bremen en þýska félagið keypti hann frá AZ í Hollandi sumarið 2015. Síðan þá hefur Aron aðeins komið við sögu í 27 deildarleikjum, og engan spilað á yfirstandandi leiktíð sem er hans fjórða með liðinu.

Samningur Arons við Werder rennur út næsta sumar og segir miðillinn Deich Stube, sem fjallar um þýska félagið, að því sé ólíklegt að Aron spili aftur leik með liðinu. Aron, sem á að baki 19 landsleiki fyrir Bandaríkin, er á öðru máli:

„Ég hef lært margt á þeim langa tíma sem ég hef varið utan vallar. Þetta hefur stundum tekið mikið á mann en ég hef aldrei efast um að ég myndi snúa aftur. Ég hlakka til spennandi árs 2019 þar sem ég er viss um að ég mun hjálpa Werder Bremen að ná markmiðum okkar á þessari leiktíð og snúa aftur í bandaríska landsliðið,“ skrifaði Aron á Instagram. 

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »