Hefðum getað jafnað með smá heppni

Kári Árnason sækir að Michy Batshuayi í kvöld. Batshuayi skoraði ...
Kári Árnason sækir að Michy Batshuayi í kvöld. Batshuayi skoraði bæði mörk Belga. AFP

„Við vissum allan tímann að þeir myndu vera mikið með boltann. Við vörðumst vel fannst mér og þeir sköpuðu lítið af opnum færum. Svo fengum við klaufaleg mörk á okkur,“ sagði varnarmaðurinn Kári Árnason í samtali við Stöð 2 sport eftir 0:2-tap fyrir Belgíu í lokaleik Íslands í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. 

Belgíska liðið var mikið mun meira með boltann, en Ísland fékk fínt færi til að jafna leikinn, skömmu áður en annað markið kom. Albert Guðmundsson átti þá skot innan teigs en Thibaut Courtois í marki Belga varði vel. 

„Kannski var þetta einbeitingarleysi. Það er erfitt að halda einbeitingu í 90 mínútur þegar þú ert lítið með boltann. Við fengum svo færi í stöðunni 1:0 og hefðum getað jafnað þetta með smá heppni. Þá hefði þetta verið allt annar leikur.“

Þrátt fyrir tapið er Kári stoltur af framgöngu íslenska liðsins í kvöld, undir mjög erfiðum kringumstæðum. 

„Ég er gríðarlega stoltur af því sem við lögðum í þennan leik. Það var mikið af meiddum mönnum og ungir strákar komu inn og voru sprækir. Þeir héldu vel í boltann þegar á þurfti að halda. Auðvitað er alltaf leiðinlegt að tapa, en svona er þetta,“ sagði Kári enn fremur í samtali við Stöð 2 sport. 

mbl.is