Ísland er gott varnarlið

Roberto Martinez.
Roberto Martinez. AFP

„Í fyrri hálfleik leyfðum við íslenska liðinu að spila sinn leik of mikið,“ sagði Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belga, eftir sigur sinna manna gegn Íslendingum í Þjóðadeild UEFA í Brussel í kvöld.

Belgar þurftu að bíða fram á 65. mínútu til að brjóta á bak aftur sterkan varnarmúr íslenska liðsins en þá skoraði Michy Batshuayi og hann bætti svo við öðru marki á 81. mínútu leiksins.

„Fyrra markið var eitt það fallegasta sem þið sjáið í Þjóðadeildinni,“ sagði Martinez en hinn magnaði Eden Hazard var arkitektinn að því þegar hann átti gullfallega sendingu inn á Thomas Meunier sem sendi boltann í fyrstu snertingu á Batshuayi sem skoraði af stuttu færi.

„Þetta var erfiður leikur eins og við reiknuðum með. Ísland er gott varnarlið og hefur sýnt það á síðustu árin. Við þurfum að vera þolinmóðir og bíða þolinmóðir eftir færunum,“ sagði Martinez, sem hefur gert frábæra hluti með belgíska landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert