Sannfærandi sigur í svanasöng Rooney

Wayne Rooney lék sinn síðasta landsleik í kvöld.
Wayne Rooney lék sinn síðasta landsleik í kvöld. AFP

Enska landsliðið í knattspyrnu vann öruggan 3:0-sigur á Bandaríkjamönnum í vináttuleik á Wembley í kvöld. Wayne Rooney kom inn á sem varamaður á 58. mínútu í sínum 120. og síðasta landsleik, en hann er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi með 53 mörk.

Jesse Lingard, leikmaður Manchester United, skoraði fyrsta markið á 25. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Liverpool-maðurinn Trent Alexander-Arnold sitt fyrsta landsliðsmark og breytti stöðunni í 2:0. 

Callum Wilson, framherji Bournemouth, skoraði þriðja markið á 77. mínútu í sínum fyrsta landsleik og þar við sat. England fær Króatíu í heimsókn í Þjóðadeildinni á laugardaginn kemur og sigurliðið vinnur 4. riðil A-deildarinnar. 

Þýskaland og Rússland mættust í vináttuleik í Leipzig í kvöld og lauk leik með 3:0-sigri Þjóðverja. Leroy Sané, Niklas Süle og Serge Gnabry skoruðu mörk Þjóðverja í fyrri hálfleik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert