Lars í baráttu við Búlgari

Slóveninn Domen Crnigoj og Norðmaðurinn Haitam Aleesami í leiknum í …
Slóveninn Domen Crnigoj og Norðmaðurinn Haitam Aleesami í leiknum í Ljubljana í kvöld. AFP

Einvígi Norðmanna og Búlgara um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA og keppnisrétt í umspilinu fyrir EM 2020 hélt áfram í kvöld þegar bæði lið gerðu 1:1 jafntefli í sínum leik í næstsíðustu umferð 3. riðils C-deildarinnar.

Noregur og Búlgaría eru með 10 stig fyrir lokaumferðina en Kýpur er með 5 stig og Slóvenía 2. Búlgaría á eftir heimaleik við Slóveníu en Noregur, undir stjórn Lars Lagerbäck, á eftir útileik gegn Kýpur. Slóvenar eru þegar fallnir niður í D-deildina.

Benjamin Verbic kom Slóvenum yfir strax á 9. mínútu en Björn Johnsen jafnaði fyrir Norðmenn á 85. mínútu í Ljubljana, 1:1.

Kýpur komst yfir gegn Búlgaríu þegar Panayiotis Zachariou skoraði á 24. mínútu en Nikolay Dimitrov náði að jafna fyrir Búlgari á 89. mínútu úr vítaspyrnu, 1:1.

Finnland er eina liðið sem hefur tryggt sér sæti í B-deild. Um hin sætin berjast Noregur/Búlgaría, Ísrael/Skotland og Serbía/Svartfjallaland/Rúmenía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert