Ótrúleg endurkoma Englands

Harry Kane átti stóran þátt í sigri enska liðsins í ...
Harry Kane átti stóran þátt í sigri enska liðsins í dag. AFP

Harry Kane reyndist hetja Englands þegar liðið fékk Króatíu í heimsókn á Wembley-leikvanginn í London í 4. riðli A-deildar Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu í dag en Kane skoraði sigurmark enska liðsins á 85. mínútu eftir aukaspyrnu Ben Chilwell.

Andrej Kramaric kom Króötum yfir á 57. mínútu og England á leiðinni í B-deildina. Jesse Lingard jafnaði metin fyrir enska liðið á 78. mínútu eftir laglegan undirbúning Harry Kane en enska liðið þurfti að vinna leikinn til þess að halda sér í A-deildinni og komast áfram í undanúrslit A-deildar Þjóðadeildarinnar.

Það var svo Harry Kane sem skoraði sigurmarkið á 85. mínútu eins og áður hefur komið fram og lokatölur á Wembley 2:1-sigur enska liðsins. England endar í efsta sæti 4. riðils með 7 stig, einu stigi meira en Spánverjar, en Króatar enda í neðsta sætinu og eru fallnir í B-deildina.

mbl.is