Sviss vann riðil Íslands

Kevin Mbabu, Haris Seferovic, Granit Xhaka og Nico Elvedi fagna …
Kevin Mbabu, Haris Seferovic, Granit Xhaka og Nico Elvedi fagna þriðja marki Sviss í kvöld. AFP

Fleiri en Íslendingar geta lent í því að fá á sig mörg mörk í knattspyrnuleik í Sviss því Svisslendingar unnu Belga 5:2 í Þjóðadeild UEFA í Bern í kvöld. Þar með vann Sviss riðilinn og er komið í undanúrslit keppninnar.

Þar með eru Portúgal, England og Sviss komin í undanúrslit og fjórða liðið verður annaðhvort Holland eða Frakkland en undanúrslitin verða leikin í Portúgal næsta sumar.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast þá komst sterkt lið Belga í 2:0 í kvöld en Sviss svaraði með fimm mörkum. Sviss þurfti að vinna með tveggja marka mun til að vinna riðilinn og gerðu það og marki betur. 

Sviss og Belgía eru með 9 stig og Ísland án stiga. Innbyrðisviðureignir ráða úrslitum og Sviss vann með meiri mun í Sviss en Belgía gerði í fyrri leik liðanna í Belgíu. Sviss skoraði 14 mörk í leikjunum fjórum og markatala liðsins er 14:5. 

Thorgan Hazard kom Belgíu í 2:0 með tveimur mörkum á fyrstu sautján mínútunum og fátt sem benti til þess á þeim tímapunkti að baráttan um hvort liðið færi áfram yrði spennandi. En Svisslendingar skoruðu þrjú mörk fyrir hlé. Ricardo Rodriguez úr víti á 26. mínútu og Haris Seferovic bætti við tveimur mörkum á 31. og 44. mínútu. 

Nico Elvedi skoraði fjórða markið á 62. mínútu og Haris Seferovic náði þrennunni á 84. mínútu og gulltryggði áframhaldandi þátttöku Sviss í Þjóðadeildinni. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert